Íhugunarefni fyrir stjúpfjölskyldur :)

ChildsHand1.    Viðurkennum að stjúpfjölskyldur eru ólíkar hefðbundnum fjölskyldum

  • Stjúpfjölskyldur eru ekki eins og fjölskyldur þar sem parið/hjónin eiga öll börnin saman. Í hefðbundnum kjarnafjölskyldum tengist foreldri barni sínu við fæðingu og uppeldið fer svo eftir gildismati foreldranna.

  • Í stjúpfjölskyldum flytur fólk saman, oft án þess að nokkur tengsl hafi náð að myndast. Án tengsla getur verið erfitt að umbera pirrandi hegðun og annað gildismat en maður hefur sjálfur vanist.

  • Við sem búum í stjúpfjölskyldum verðum að vinna að því að verja tíma saman og um leið læra að virða og meta hvert annað og næra tilfinninguna að vera hluti af fjölskyldunni.

  • Fyrrverandi maki og tengdafjölskylda, stjúpbörn úr því sambandi, núverandi maki og börn hans skipta öll börnin okkar máli og tengjast fjölskyldunni á margvíslegan hátt. Þessi flóknu tengsl geta skapað streitu sem hefðbundnar kjarnafjölskyldur þurfa aldrei að takast á við.

  • Rannsóknir hafa sýnt að gleði og ánægja sé mest í byrjun hjá hefðbundnum kjarnafjölskyldum en að streita aukist eftir fæðingu barna og eftir því sem fjölskyldan stækkar. Í stjúpfjölskyldum verður oft meiri óánægja vart og streitu í upphafi en hún virðist minnka með árunum og líðan fjölskyldumeðlima batna J.

 

2.    Unum því þótt allir í stjúpfjölskyldum elski ekki hver annan

  • Óraunhæft er að búast við að ást spretti af engu. Samvera  er forsenda þess að ást, væntumþykja, umhyggja og samstaða verði til. Ekkert er þó sjálfgefið í þessum efnum. Í stjúpfjölskyldum geta margvíslegir þættir haft áhrif, s.s. aldur barna. Því eldri sem börnin eru, þeim mun síður fella þau sig við breytingar.

  • Misræmið á milli væntinga og raunveruleika er uppspretta ófullnægju og óhamingju. Þess vegna er hyggilegt að stilla væntingum í hóf og gera raunhæfar kröfur.

 

3.    Látum kynforeldra annast agamál í byrjun

  • Kynforeldri ætti að sjá um agamál barna sinna í fyrstu eða þangað til tengsl hafa myndast við stjúpforeldri. Ólíklegt er að börn sjái ástæðu til að þýðast stjúpforeldri sem það hefur ekki tengst og öðlast virðingu fyrir. Snemmbærar tilraunir til að beita stjúpbörn aga geta leitt til fjandskapar og hunsunar, ekki aðeins af hálfu barnanna heldur einnig af hálfu maka.

  • Því meiri tíma sem við verjum með stjúpbörnum okkar, þeim mun meiri líkur eru á að við öðlumst viðurkenningu þeirra og virðingu. Fyrr verður ekki tekið fullt mark á okkur.

  • Búum til tíma þar sem við erum ein með stjúpbörnum okkar, einhvern tíma þegar það hentar öllum. Samvera skapar tengsl. Með tímanum verður líklegra að tilburðir okkar til að ala upp stjúpbörnin skili árangri.

 

4.    Sýnum börnunum sveigjanleika í umgengni

  • Börn eiga auðveldara með að aðlagast eftir skilnað ef þau hafa greiðan aðgang að báðum foreldrum. Umgengni við báða kynforeldra er því mikilvæg.

  • Þegar foreldrar hefja nýja sambúð upplifa börn þeirra oft missi og afbrýðisemi. Foreldrið er nú upptekið af nýja makanum og mörgum börnum finnst eins og þeim sé ýtt til hliðar. Mikilvægt er að foreldrar gefi sér tíma til samvista með börnum sínum svo að þeim finnist sér ekki vera hafnað.

  • Hjálpum börnum sem koma í umgengni við foreldri sitt að verða hluti af heimilinu og fjölskyldulífinu með því t.d. að veita þeim rými, sem þau geta eignað sér, jafnvel þó það séu ekki nema skúffur í kommóðu.

  • Það er börnunum í hag ef foreldar þeirra búa nálægt hvort öðru. Það nærir þá tilfinningu að þau hafi aðgang að báðum foreldrum og dregur úr óöryggi sem fylgir því að hafa enga stjórn á atburðarásinni. Það auðveldar líka barninu að vera í reglulegu sambandi við vini og skólafélaga og stunda nám og félagsstörf.

  • Sveigjanleiki er sérstaklega mikilvægur í stjúptengslum. Börn, einkum unglingar, þurfa sveigjanleika í umgengni við kynforeldra. Samningar, sem foreldrar gera um umgengni þegar börnin eru lítil, s.s. um heimsóknir aðra hverja helgi, þurfa ekki að gilda um alla eilífð. Þarfir barnanna breytast. Þá er mikilvægt að allir séu reiðubúnir að endurskoða stöðuna og finna út hvað er hentugast á hverjum tíma.

  • Við þurfum að vera viðbúin því að endurskoða samninga um umgengni þegar börnin verða unglingar. Unglingar vilja verja meiri tíma með vinum sínum en áður og verða að fá tækifæri til þess. Það getur líka verið góð tilbreyting og auðveldað aðlögun, fái börn og unglingar að hafa vini sína með í umgengni við það foreldri, sem þau/þeir búa ekki hjá að staðaldri.

  • Unglingsárunum fylgir löngun til aukins sjálfstæðis. Á því skeiði ævinnar eru börn að losa um tengslin við fullorðna fólkið og reyna að standa á eigin fótum. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga bæði hvað varðar umgengnina og tengslamyndun. Samverustundirnar, sem fylgja umgengninni, eru mikilvægar á þessu þroskaskeiði eins og öðrum, en hugsanlega má fækka næturgistingum, ef það hentar unglingnum betur.

  • Mikilvægt er að kynforeldrarnir séu í góðu sambandi hvort við annað og fylgjast með hegðun unglingsins og hvar hann er hverju sinni.

 

5.    Finnum okkur hlutverk en ofleikum ekki

  • Það er sorglegt að vita til þess að fullorðnum sem hafa gaman af börnum og virðast vera tilvaldir stjúpforeldrar eru stundum útilokaðir eða þeim hafnað af stjúpbörnum sínum.

  • Flest börn sýna  kynforeldrum sínum mikla hollustu, hvort sem við teljum þau góða eða slæma foreldra. Förum ekki í samkeppni við kynforeldra barnanna um ást þeirra og athygli. Við þurfum ekki að vera ofurstjúppabbar eða -stjúpmömmur. Verum við sjálf!

  • Börnum getur fundist þau svíkja á einhvern hátt það foreldri sem ekki er á staðnum ef það sýnir stjúpforeldri sínu væntumþykju og hlýju.

  • Byrjum á því að reyna að búa til vináttutengsl. Sýnum börnunum áhuga en kæfum þau ekki í athygli. Ef stjúpbarn krefst mikils rýmis, veitum því það, þótt það feli í sér að það hafi lítið samneyti við okkur. Við getum gert kröfu um að okkur sé sýnd kurteisi. Við getum ekki gert kröfu um að við séum elskuð.

  • Sleppum aðfinnslum og neikvæðum athugasemdum eins og unnt er. Við munum ekki sjá eftir því. Flest okkar umbera slíkt frá foreldrum, en fæst okkar frá stjúpforeldrum, einkum og sér í lagi áður en tengsl hafa skapast.

6.    Tökum ekki hlutina persónulega

  • Mikilvægt er að taka gagnrýni á okkur sem stjúpforeldrar ekki of persónulega. Hlutverk stjúpforeldra er ekki auðvelt og vanþákklátt í sjálfu sér.

  • Jafnvel fullorðin stjúpbörn hafa viðurkennt að þau hafi hafnað stjúpforeldrum sínum vegna þess að þeir eru ekki raunverulegir foreldrar þeirra. Við breytum engu um það en þurfum hins vegar að muna að þetta snýst sjaldnast um okkur persónulega.

  • Munum að rækta okkur sjálf. Þá finnum við síður til kvíða, öryggisleysis og höfnunar, þótt við mætum neikvæðri afstöðu stjúpbarnanna.  

  • Glötum ekki skopskyninu. Það hjálpar þegar annað dugir ekki til! J

 

7.    Komum á skipulagi sem skapar samkennd

  • Það skiptir ekki máli hvert skipulagið er, pizzubakstur á föstudögum, sundferð á sunnudögum, kvöldverður á miðvikudögum eða sumarbústaðarferð á vorin, ef það verður til þess að fjölskyldan og sérstaklega börnunum finnist þau tilheyra hópnum.

  • Allar fjölskyldur þrífast á sameiginlegum minningum og verkefnum. Þegar við förum í sumarfrí eða gerum eitthvað sérstakt saman skulum við taka með okkur myndavélina. Að skoða myndir saman eða myndbönd úr fríum er góð leið til þess að stjúpfjölskyldan geti skapað sér sameiginlegar minningar.

8.    Verum opin og hreinskilin um stöðuna í fjármálum

  • Velgengni í sambúð og hjónabandi er m.a. háð því hversu vel mökum tekst að ræða við hvort annað um fjármálin. Taka þarf tillit til fleiri þátta í þessu sambandi innan stjúpfjölskyldu en hefðbundinnar kjarnafjölskyldu.

  • Þó að flestum finnist umræða um peninga og fjárhagsstöðuna ekki sérstaklega rómantísk er ekki hjá henni komist ef par vill byggja upp traust sín á milli og góða fjármálstjórnun í sambandinu.

  • Höfum engin leyndarmál þegar kemur að fjármálum. Hætta er á að maki upplifi óvæntar uppákomur í þeim efnum sem svik í sambandinu.  Greinum frá eignum okkar, tekjum og  skuldum, sama hversu svart útlitið er. Það er ekki fyrr en við leggjum öll spilin á borðið að við getum sett okkur markmið í fjármálum sem öðru og stefnt að þeim sem par.

  • Það getur verið gagnlegt að hafa “þinn,”  “minn” og “okkar” reikning til að koma á móts við ólíkt neyslumynstur og einnig fjárhagsskuldbindingar sem tengjast fyrrverandi maka og börnum af fyrra sambandi.

 

9.    Munum að hafa parasambandið í fyrirrúmi

  • Það koma upp vandamál í flestum samböndum og er mikilvægt að pör geti leyst úr þeim í sameiningu. Velgengni stjúpfjölskyldunnar er háð því hversu vel tekst til með parasambandið. Munum að hafa það í fyrirrúmi.

  • Sýnum samstöðu, ekki sundrungu, frammi fyrir börnunum. Tíminn með þeim er ekki hentugur til að útkljá ágreining.

  • Í augum barnanna okkar þýðir nýtt samband að kynforeldri verji minni tíma með þeim. Með sama hætti og við þurfum að rækta sambandið við maka okkar, getum við þurft að gefa okkur tíma með börnum okkar einum öðru hverju. Sumir kjósa að hafa slíkar samverustundir reglulegar.

 

10.    Þakklæti frá stjúpbörnum okkar er bónus!

  • Flest okkar búast ekki við mjög miklu þakklæti af börnum okkar þegar kemur að fæði, klæði, húsnæði, bíóferðum eða akstri – en við búumst við því af öðrum börnum. Höldum væntingum um þakklæti stjúpbarna okkar í hófi, ef það kemur er það bónus! 

hlifeclass31 

Tekið af www.stjuptengsl.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband