EINELTI og það helvíti sem fylgir!

Fyrir stuttu birtist grein eftir mig um lífsbaráttuna mína í akureyrarblaðinu, ég sendi greinina áfram á fleiri miðla en einhverra hluta vegna er eins og aðeins einn aðili hafi haft það í sér að svo mikið sem svara greininni og birta hana.

Er ekki alveg nógu erfitt að vera stíga fram með sína lífsreynslu um það hvernig eineltið hefur mótað mann sem einstakling, hvað maður hefur mátt þola, þetta er ekki grín, og þetta hefur hft gríðalegar afleiðingar með sér!

Hér er hægt að lesa Greinina!

Komiði sæl.
Fríða Björk heiti ég ung stúlka fædd á Akureyri árið 1990, ég er fjórða barn foreldra minna og á því 3 eldri systkini, 11 ár eru á milli mín og elsta, svo 9 ár og svo að lokum tæp 2 ár eða 21 mánuður.
Fyrstu árin mín voru góð, ég hafði bróðir minn sem leikfélaga en okkur kom nú ekki alltaf svo vel saman en það blessaðist allt, fyrstu árin bjó ég í þorpinu, árið 1996 hóf ég grunnskólagöngu í Glerárskóla, skólagangan gekk ágætlega til að byrja með en fljótlega fyrsta árið fóru hlutir að gerast sem ekki eru ásættanlegir, ekki fyrir nokkurn mann. Fyrst af öllu var gert grín af nafninu mínu, það særði mig mjög og svona hélt þetta áfram. Stuttu síðar fluttum við úr hverfinu en ég hélt áfram í Glerárskóla, kynntist yndislegu starfsfólki þar en skólafélagarnir voru ekki í uppáhaldi. Fljótlega eftir að skólagangan hófst fór ég að bæta á mig kílóunum og var því orðin „feit” eins og skólafélagar mínir kölluðu það.

Stríðni verður einelti
Áfram hélt stríðnin og var orðin að einelti, andlegu og líkamlegu, mér leið illa, ég hætti að mæta í íþróttir, lærði ekki heima, var sjaldan boðin í afmæli, fékk ekki að vera með í hinu og þessu, augu störðu á mig í hvert sinn þegar ég mætti í skólann, illt augnaráðið vakti upp kvíða, ég var farin að óttast að mæta.
Í 5. bekk var ég send til sálfræðings, þá 10 ára gömul, það hjálpaði smá til, en lagaði ekkert, því áfram hélt stríðnin, mér var hrint á göngunum, kölluð illum nöfnum, gert grín af mér allann daginn, áfram hélt þetta, voða lítið var aðstoðað.

Vildi stökkva í Glerána
Vanlíðan hélt áfram, ég hætti að sjá fram á bjarta framtíð, í 7. bekk ákvað ég að nú væri komið nóg, ég hljóp út úr skólanum og ætlaði að enda þetta allt, hljóp í átt að Gleránni, marga metra niður horfði ég á ána, grjótin og klettana.
En sjálfselskan í mér var ekki svo mikil að ég gerði alvöru úr því að stökkva í ána, ég hugsaði að ég ætti fjölskyldu sem elskaði mig og að það væri nóg, skítt með fólkið í kring, þetta var ekki mér að kenna. Og ég viðurkenni alveg að ég svaraði oft fyrir mig, fékk brjálæðisköst og henti hlutum eins og borði, stólum, smámunum og fleira í krakkana sem gerðu mér lífið leitt.
Nýr skóli – gamalt einelti
Í 8. bekk fékk ég sent bréf heim um að ég þyrfti að skipta um skóla, var það lausnin?
Nei það var ekki nein lausn í því, því áfram hélt eineltið, ég kláraði skólagönguna í Giljaskóla, var þar í 9. og 10. bekk, ég var litin hornauga af skólafélögum,14 ára byrjaði ég að reykja, auðvitað var mér strítt út á það, en þetta var mitt líf en ekki þeirra.
Í 9.-10. bekk fór ég að umgangast eldri krakka, mér fannst ég falla betur í þann hóp, mér var tekið eins og ég var og ekki neinn barnaskapur, en það slitnaði fljótlega upp úr því, sögur gengu um skólann að ég væri ólétt 14 ára gömul. En fólk fitnar af vanlíðan, svoleiðis er það bara.

Send til geðlæknis
Í 10. bekk, var alveg komið nóg, ég hætti að mæta í tíma, svaf í tímum, lét mig hverfa, skrópaði endalaust, en komist var að samkomulagi um að ég myndi mæta fyrstu 4 tímana á stundaskránni í stað þess að skrópa alveg. Þarna var verið að hugsa út í menntun mína, ég mætti í val tvisvar í viku, það var heimilisfræði, það eina sem ég hafði gaman af og þurfti ekki að læra fyrir.
Öll heimavinna lá niðri þessi ár, ég tók illa eftir í tímum, var kvíðin, óttaðist hvernig dagurinn færi, ég var enn í sálfræðiviðtölum, nú var komið að því að hugsa út í framtíðina, samræmdu prófin á næsta leiti, hvað kunni ég í dönsku, stærðfræði, sá bara tölur á blaði, íslenski? Hvað, hver hvernig? Ég meina það ég vissi ekkert, erum við ekki látin ganga í skóla til að læra?
Ég mætti ekki í öll samræmdu prófin enda vissi ég fátt, krossaði í eitthvað, skildi ekkert, fékk þó að mæta á skólaslitin.
Daginn fyrir skólaslitin var ég send áfram til geðlæknis, átti hann að hjálpa til þennan dag eða? Nei, gleðin var í hámarki, helvíti var á enda, ég var að losna undan þessu öllu, viðtalið fór til einskis, ekki réttur tími, eintóm hamingja að geta slappað af og sofið, gleymt öllu.

Irkið hjálpaði
En ekki skánaði það fyrstu mánuðina eftir á, sögusagnir um allan bæ, leiðindi, líflátshótanir og svo lengi má telja. Ég þurfti að loka fyrir nánast allar mínar bloggsíður sem ég hélt úti, fólk utan af landi skrifaði ill orð í minn garð og hótaði hinu og þessu. Auðvitað reyndi ég að taka sem minnst mark á því, en var auðvitað bara krakki. Árið 2005 byrjaði ég að stunda vefspjall sem heitir IRC eða irkið eins og við köllum það. Þar kynntist ég fullt af fólki, yndislegu fólki sem sá mig eins og ég var, vissi ekki fortíð mína, mér leið vel með það, en inn á milli voru þeir sem dæmdu út frá hegðun og tali, en mér var sama, ég naut þess að vera til.
Ég hitti fullt af fólki af irkinu og enn þann dag í dag þekki ég suma af þeim, þau tóku mér eins og ég var! Ég kynntist stelpu sem var jafnaldri minn, hún var frá Sauðarkróki, við náðum vel saman, hittumst og skemmtum okkur vel, héldum sambandinu áfram til ársins 2011.
Eftir grunnskólann hélt ég ekki áfram, ég lokaði mig af í minni veröld, þar sem ég ein gat ráðið öllu, ég var alltaf númer eitt og enginn gat sagt neitt, ég hafði engan kjark í áframhaldandi nám, hvað þá að fara á vinnumarkað, kvíðinn var einfaldlega of mikill, og er enn daginn í dag.

Kærasti og börn
Veturinn 2006 kynntist ég manni, hann var níu árum eldri en ég en við náðum vel saman, við hófum sambúð, ég flutti til hans út í sveit, svo komu óvæntar fréttir sem ég hafði ekki gert ráð fyrir, ég varð barnshafandi veturinn 2007, en ákvað að takast á við lífið framundan með bros á vör, þarna væri lítill erfingi á leiðinni sem gæti veit birtu í lífið. Í maí 2008 eignaðist ég svo þann fallega litla dreng eftir 38 vikur og 2 daga á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, hann vóg 11 merkur eða 2650 grömm og var 47 sentimetrar, svo lítill og saklaus, lífið snerist algjörlega við, hamingjan sem kom, vá ég trúði því ekki hversu bjart allt gæti orðið á einu augnabliki.
Við mæðgin fengum frábæra þjónustu, við lágum inni í 4 daga, komum heim í einn dag þar til við þurftum af fara upp á barnaspítala þar sem guttinn fékk ungbarnagulu, við tók ljósatími í sólahring, vá hvað það var erfitt, brjóstagjöfin gekk brösuglega fyrir sig og vorum við meira og minna í svokallaðri brjóstavigtun eftir ljósin. Loksins eftir tvær vikur af spítalastússi komum við heim, lífið var frábært, litla ljósið var draumur, þegar við komum heim var hann lítill pelastrákur, það gekk rosalega vel, hann var duglegur að dafna.
Sumarið 2008 gekk þokkalega fyrir sig, fyrir utan að sonur minn þurfti að leggjast inn á spítala í tvo daga, vegna berkjubólgu og hita, þá ekki orðinn tveggja mánaða, það tók á mömmuhjartað. Í lok sumars breyttust aðstæður svo við fluttum út á Ársskógsand, þar átti ég gott vinafólk að sem hjálpaði mér mikið, kærastinn fékk vinnu í Reykjavík í september 2008, hans leið lá suður, á meðan ég þurfti að taka þá erfiðu ákvörðun hvort ég ætti að flytja suður, en svo þegar drengurinn var orðinn 3ja mánaða komu svo aðrar óvæntar fréttir, hann var að verða stóri bróðir, miklar vangaveltur urðu í lífinu, hvað skyldi gera,
Leiðin lá til Reykjavíkur í mars 2009, þá var ég komin sjö mánuði á leið með litla bumbudömu. Í maí 2009 eignaðist ég svo dóttur mína þegar strákurinn var orðinn rúmlega 11 mánaða, kærastinn minn var í 12 tíma vinnu á dag svo á þessum tíma hafði mikið vatn runnið til sjávar í mínu lífi, ég ung móðir með tvö lítil börn, en ég massaði það! Sumarið 2009 fékk svo sonur minn inn á leikskóla, það var mikill munur.

Heim af spítala vegna afmælis
Fæðing dóttur minnar gekk hratt fyrir sig, ég gekk með hana í 38 vikur og 4 daga, en í sjálfri fæðingunni fékk ég áfall,það kom í ljós að hún væri sitjandi, rassinn var á undan, mér leið rosa illa og vildi hætta við, en það var ekki í boði, en allt gekk vel fyrir sig og litla daman vóg 2440 grömm og var 46 cm. Hún flokkaðist undir léttbura, svo við tók bras með brjóstið aftur, hún var frekar löt að drekka svo við þurftum að vera inni í fjóra daga á sængurkvennagangi. Það versta við þessa dvöl var að það stefndi í að ég gæti ekki verið heima hjá drengnum mínum á eins árs afmælisdeginum hans, fyrsta afmælisdeginum hans, ég tók því ákvörðun um að heim skyldi halda og að ég væri fullfær um pelagjöf, enda búin með þann pakka.
Fyrstu tvö ár sonar míns voru full af veikindum, það voru lungnabólgur, kvefpestir, eyrnabólgur, astmakvef og allt sem fylgir því að styrkja ofnæmiskerfið, Það tók á. Fyrsta ár dóttur minnar var brösulegt, hún var frekar treg að þyngjast, greip einnig allar pestir og þegar hún var 6-7 mánaða þyngdist hún aðeins um 20 grömm. Það var ákveðið áfall, en þar kom útskýringin á pirringnum í henni, hún greindist með ungbarnaastma á háu stigi, við tók strembin pústmeðferð oft á dag, það varð sá stutti ekki sáttur með, afbrýðissemin fór alveg með hann, hann varð óþekkur við systur sína, en það var bara tekið á því eins og öllu öðru. Astmameðferðin gekk hratt og vel fyrir sig og þegar daman var tæplega átta mánaða hætti meðferðin, hún var orðin vel hraust eftir það.

Sveppur í íbúðinni
Áfram hélt lífið og það kom upp smávandamál með dömuna, hún var lin í liðamótum og sein til að hreyfa sig, byrjaði ekki að sitja sjálf fyrr en 10 mánaða, stóð ekki upp fyrr en rúmlega 11 mánaða en fór svo loks að ganga 16 mánaða, það létti á mörgu.
Við litla fjölskyldan héldum ótrauð áfram, loks eftir að við fluttum í aðra íbúð minnkuðu veikindin til muna, við fundum svepp í íbúðinni sem við bjuggum í, það hafði greinilega haft mikil áhrif á litlu krílin, börnin fóru að dafna betur og allt gekk betur, komin góð rútína á þau.
Í febrúar 2011 varð ég ófrísk í þriðja sinn, 3ja barnið hafði komið sér fyrir, meðgangan gekk vel, við tókumst á við það sem að höndum bar. Þetta varð fjórða barn kærasta míns, og er sonur hans sko ríkur af systkinum.

Mesta áfallið
Í maí 2011 fékk ég mesta áfall lífs míns, 12. maí var ég að fletta yfir fréttamiðlana og sá að vinkona mín sem ég hafði talað við á irkinu í sex ár hafði látist á hrottalegan hátt. Eins og svo margir sem þekktu þessa stelpu varð ég fórnalamb hugsunarleysis fréttamiðla, þennan dag. Við vinkona höfðum talað saman nánast daglega, þar til mánuði áður en þá var eins og að jörðin hefði gleypt hana, ég vil ekki velta mér upp úr því frekar, hennar er sárt saknað og ég mun aldrei nokkurn tímann gleyma henni.

Börnin minn skjöldur
Sumarið 2011 gekk rosalega vel fyrir sig, krakkarnir voru yfir sig spenntir yfir nýja krílinu sem áætlað var í heiminn 27. október 2011, þann 5. september komst litla daman mín loks inn á leikskóla, enda kominn tími til að slaka aðeins á fyrir komandi fæðingu. Á þriðju meðgöngunni var ég send í vaxtarsónar til að fylgjast með nýja krílinu stækka, þar sem systkinin voru lítil og létt, það var bara gaman að fylgjast með þessu, enda leit allt eðlilega út.
Ég ákvað að þessari meðgöngu skyldi ég halda leyndri, svo ég yrði ekki fyrir fordómum, eða leiðindum, enda var þetta alls ekki í framtíðarplaninu, börnin voru mér sem skjöldur, þau hjálpuðu mér mikið í mínu þunglyndi, ég hafði sjálf barist við mitt þunglyndi síðan ég var 10 ára, engar lyfjameðferðir bara sálfræði.
Enn eitt óvænta atvikið kom upp þann 22. september 2011, þá var ég komin 35 vikur á leið þegar vatnið fór, mér var brugðið, ég var ekki tilbúin, ekki þessa stundina, þar sem fimm vikur voru enn í áætlaðan fæðingardag, og krílið ekki búið að skorða sig, þurfti að kalla til sjúkrabíl, vá, ég var svo hrædd, ég var kvíðin, hvað ef litla krílið mitt myndi ekki lifa það af, en sem betur fer eigum við góða lækna!

Gullfalleg dama
Ég var lögð inn um nóttina, vatnið vætlaði og ekkert var að gerast, engir verkir, bara smávægilegir samdrættir, kl 9:40 um morgunin var loks eitthvað búið að gerast, sett var upp dripp og aukið hægt og rólega, hríðaverkir eru verstu verkir sem ég hef á ævinni fundið. Klukkan 13:06 fæddist svo þessi gullfallega daman, hún vóg 2520 grömm sem er yfir léttbura mörkum, 2500 grömmunum, hún var 45,5 cm fullkomin pínulítil, heilbrigð og rosalega sterk.
Í fyrstu hélt ég að við tæki lega inn á vöku, en svo var ekki, við lágum 6 daga inni á sængurkvennadeildinni, okkur mæðgum leið vel, litla daman tók brjóst eins og enginn væri morgundagurinn, vá hvað það var yndisleg tilfinning, hún fékk örlitla ábót í pela en var að mestu á brjósti, ég var svo ánægð að loks náði ég að framleiða nægilega mjólk til að styrkja þessa litlu hetju.
Við komum heim, eldri systkinin voru yfir sig hrifin og stolt, fjölskyldan hafði stækkað, svo mikil hamingja, engin vandkvæði urðu með litla stýrið, hún dafnaði hratt og vel, í öllum skoðunum hefur hún fengið topp einkunn og varla hægt að trúa að hún sé fyrirburi, en jú svo er.

Ný lyfjagjöf
Í nóvember 2012 ákvað ég að leita mér aðstoðar með þunglyndið, því ég vildi geta séð börnum mínum fyrir góðu og gleðiríku lífi, í fyrstu var ég sett á þunglyndislyf sem höfðu ekki góðar afleiðingar, allt ruglaðist í hausnum á mér, svo þeirri meðferð var hætt í snatri, við tók nýtt viðtal, þar var skoðað vel yfir málið, í ljós kom að ekki einungis var um þunglyndi að ræða heldur geðhvörf, sveiflukennt ástand.
Svo nú hófst ný lyfjagjöf til að hjálpa til við að komast að jafnvæginu. Fjórar vikur af sex eru liðnar, ég finn mun og reyni inn á milli að vinna sjálf í hlutunum, er ekki bara að taka inn lyfin, ég vinn á móti þessu, ég geri eitthvað fyrir sjálfa mig, ég ræði veikindin, finn stuðning, og horfi fram á við. Ég vil gera allt sem ég get til að vera „heil heilsu” fyrir fjölskylduna mína, sem hefur stutt mig mikið í gegnum lífið, bæði foreldrar mínir, mín eigin litla fjölskylda, stórfjölskylda, tengdafjölskylda og vinir.
Ætla að taka nýja árið með stæl
Ég ætla taka nýja árið 2013 með stæl, ég ætla sigrast á þessu öllu, sama hvað hver segir, og í lokin langar mig til þess að biðja þá afsökunar sem eiga það skilið en ég vona líka innilega að þeir sem tóku þátt í eineltinu gegn mér skammist sín,líti í eigin barm og hugsi um það sem þeir hafa gert.
Með von um bjarta framtíð og eigið gleðilegt ár.
Fríða Björk Einarsdóttir


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Eva Þórhallsdóttir

Þú ert rosalega flott og sterk Fríða mín. :)

Kristín Eva Þórhallsdóttir, 8.1.2013 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband